Ronaldo skoraði en Young Boys vann

Young Boys vann Manchester United 2:1 í F-riðli Meistaradeildar Evrópu karla í knattspyrnu í Sviss í kvöld. 

Riðlakeppnin var að hefjast og var þetta því fyrsti leikur liðanna í riðlinum. Það tók Cristiano Ronaldo ekki nema þrettán mínútur að skora fyrir United en hann lék síðast fyrir United í Meistaradeildinni í úrslitaleiknum gegn Barcelona árið 2009. 

Leikurinn tók aðra stefnu á 35. mínútu þegar bakvörðurinn Aaron Wan-Bissaka hjá United fékk rauða spjaldið fyrir tæklingu. Klaufalegt brot og ákvörðun dómarans vafalítið rétt. 

Að loknum fyrri hálfleik var staðan 1:0 fyrir United. Nicolas Ngamaleu jafnaði af stuttu færi á 66. mínútu eftir fyrirgjöf bakvarðarins Hefti frá hægri. 

United reyndi mestmegnis að verjast í síðari hálfleik. Ronaldo og Fernandes voru teknir af velli þegar tuttugu mínútur voru eftir. Fimm mínútum var bætt við leiktímann og þegar fjórar mínútur voru liðnar af uppbótartímanum virtist jafntefli ætla að verða niðurstaðan. 

Það breyttist skyndilega. Varamaðurinn Jesse Lingard fékk boltann á eigin vallarhelmingi. Hann sendi boltann til baka, væntanlega var sendingin ætluð De Gea, en hún var alltof laus og hafnaði hjá Siebatcheu. Hann var einn á móti De Gea og renndi boltanum í netið. Svisslendingarnir fögnuðu geysilega og lái þeim hver sem vill. Var þetta síðasta snerting leiksins. 

Í F-riðli eru einnig Villarreal og Atalanta og þau mætast í kvöld. 

 

Young Boys 2:1 Man. Utd opna loka
90. mín. Fimm mínútum er bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert