„Sakna ég Gullknattarins? Nei, Gullknötturinn saknar mín!“

Zlatan Ibrahimovic hefur óbilandi trú á sjálfum sér.
Zlatan Ibrahimovic hefur óbilandi trú á sjálfum sér. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic hefur aldrei þjáðst af skorti á sjálfstrausti. Þrátt fyrir að verða brátt fertugur telur hann sig enn þann besta í heiminum.

„Ef við erum að tala um hreinræktuð gæði bý ég ekki yfir minni gæðum en Cristiano Ronaldo og Lionel Messi,“ sagði Zlatan í viðtali við France Football.

Hann hefur aldrei unnið til Gullknattarins, eftirsóknarverðustu einstaklingsverðlaunanna á meðal knattspyrnumanna. Ronaldo hefur unnið til verðlaunanna fimm sinnum og Messi sex sinnum, oftast allra.

Zlatana lætur það þó ekki á sig fá. „Sakna ég Gullknattarins? Nei, Gullknötturinn saknar mín! Innsti inni tel ég að ég sé bestur í heiminum,“ sagði hann einnig við France Football.

mbl.is