City skoraði sex gegn Leipzig

Jack Grealish fagnar sínu fyrsta Meistaradeildarmarki á Etihad-vellinum í Manchester.
Jack Grealish fagnar sínu fyrsta Meistaradeildarmarki á Etihad-vellinum í Manchester. AFP

Manchester City fer vel af stað í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu en liðið vann 6:3-sigur gegn Leipzig í A-riðli keppninnar í Manchester í kvöld.

Nathan Ake kom City yfir á 16. mínútu og tólf mínútum síðar varðNordi Mukiele fyrir því óláni að skora sjálfsmark í liði Leipzig. 

Christopher Nkunku minnkaði muninn fyrir Leipzig á 42. mínútu áður en Riyad Mahrez tvöfaldaði forystu City með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Nkunku var aftur á ferðinni á 51. mínútu þegar hann minnkaði muninn í 2:3 en Jack Grealish skoraði fjórða mark City fimm mínútum síðar.

Joao Cancelo bætti svo við fimmta marki City á 75. mínútu áður en Gabriel Jesus innsiglaði sigur enska liðsins á 85. mínútu.

Í hinum leik riðilsins gerðu Club Brugge og PSG 1:1-jafntefli í Belgíu þar sem Ander Herrera skoraði mark Frakkanna.

Þá átti Seabastien Haller stórleik fyrir Ajax þegar liðið heimsótti Sporting í Portúgal í C-riðli keppninnar en Fílbeinsstrendingurinn gerði sér lítið fyrir og skoraði fernu fyrir Ajax.

Rodrygo var svo hetja Real Madríd þegar liðið heimsótti Inter Mílanó á Ítalíu í D-riðlinum en hann skoraði sigurmarkið í 1:0-sigri spænska liðsins á 89. mínútu.

Sebastien Haller fór á kostum í liði Ajax.
Sebastien Haller fór á kostum í liði Ajax. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert