Gaf gult og svo rautt án þess að hafa gefið fyrra gula

Anthony Taylor ræðir málin við Cristiano Ronaldo um síðustu helgi.
Anthony Taylor ræðir málin við Cristiano Ronaldo um síðustu helgi. AFP

Enski knattspyrnudómarinn Anthony Taylor hljóp á sig þegar hann dæmdi leik Dynamo Kiev og Benfica í E-riðli Meistaradeildar Evrópu karla í gær.

Á 82. mínútu gaf hann miðjumanninum Denys Harmash sitt annað gula spjald  og þar með rautt.

Þar var einn hængur á; Harmash hafði aldrei fengið fyrra gula spjaldið í leiknum og átti því sannarlega ekki að fá reisupassann.

Taylor var gert viðvart um mistökin af aðstoðardómurum sínum og leiðrétti þau þá og Harmash fékk því að klára leikinn, sem endaði með markalausu jafntefli, með sitt eina gula spjald á bakinu.

mbl.is