Leggja til jöfn laun hjá karla- og kvennalandsliðum

Megan Rapinoe og Alex Morgan hafa barist fyrir því að …
Megan Rapinoe og Alex Morgan hafa barist fyrir því að kvennalandslið Bandaríkjanna fái jafnhjá laun greidd og karlalandsliðið. AFP

Bandaríska knattspyrnusambandið hefur tilkynnt að það hafi boðið leikmannasamtökum karla- og kvennalandsliða samninga sem kveði á um að leikmenn beggja liða muni fá greidd jafnhá laun.

Í tilkynningu frá sambandinu segir að tilboðið sé lagt fram með það fyrir augum að samræma kjarasamning landsliðanna.

„Knattspyrnusambandið trúir því statt og stöðugt að besta leiðin til framtíðar fyrir alla hlutaðeigandi, og fyrir framtíð íþrótta í Bandaríkjunum, sé einn og sami launastrúktúrinn fyrir bæði landslið.

Þetta tilboð mun verða til þess að kvenna- og karlalandslið Bandaríkjanna í knattspyrnu munu áfram vera á meðal hæst launaða landsliðsfólks í heiminum, á sama tíma og þeim verður tryggður hluti af tekjum sem myndi gera þeim kleift að byrja upp á nýtt og deila sín á milli þeirri samanlögðu fjárfestingu sem verður lögð í bandaríska knattspyrnu í knattspyrnu á meðan þessi nýi kjarasamningur er í gildi,“sagði einnig í tilkynningunni.

Bandarískar landsliðskonur hafa löngum gagnrýnt það að þær fái lægra borgað en landsliðsmennirnir, ekki síst vegna þess að árangur kvennanna hafi verið margfalt betri í gegnum árin.

Fjórir heimsmeistaratitlar og fjórir ólympíutitlar eru uppskeran hjá bandaríska kvennalandsliðinu undanfarna þrjá áratugi.

Landsliðskonurnar Megan Rapinoe og Alex Morgan stóðu fyrir lögsókn vegna ójafnra launa og vinnuaðstæðna landsliðsins árið 2019 en alríkisdómari felldi málið niður.

Bandaríska knattspyrnusambandið og landsliðskonurnar komust þó á síðasta ári að samkomulagi í tengslum við vinnuaðstæður, en þær eiga enn sem komið er eftir að tjá sig um samningstilboð sambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert