Lingard mun læra af mistökunum

Jesse Lingard kemur inn á fyrir Cristiano Ronaldo í leiknum …
Jesse Lingard kemur inn á fyrir Cristiano Ronaldo í leiknum í gær. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Jesse Lingard muni læra af skelfilegum mistökum sínum sem leiddi til sigurmarks Young Boys í leik liðanna í Meistaradeild Evrópu í gær.

Í stöðunni 1:1 gaf varamaðurinn Lingard, sem hafði komið inn á fyrir markaskorara United í leiknum, Cristiano Ronaldo, slæma sendingu til baka sem Jordan Siebatcheu komst inn í og nýtti sér vel er hann kom Young Boys í 2:1.

Sigurmark Siebatcheu kom á fimmtu mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma og því enginn tími fyrir Lingard eða samherja hans að bæta upp fyrir mistökin.

„Við erum manneskjur, allir fótboltamenn gera mistök. Enginn fótboltamaður vill gera mistök og Jesse er ekki þar undanskilinn en þetta er auðvitað hluti af leiknum.

Við munum læra af þessu, hann mun læra af þessu. Hann mun komast yfir þetta og verða klár í slaginn á sunnudaginn þegar við mætum West Ham,” sagði Solskjær eftir tap gærdagsins.

mbl.is