Skaut á stórstjörnur PSG

Simon Mignolet kom engum vörnum við þegar Ander Herrera skoraði …
Simon Mignolet kom engum vörnum við þegar Ander Herrera skoraði mark PSG í gær en sagðist annars hafa haft lítið að gera á milli stanganna. AFP

Simon Mignolet, markvörður Belgíumeistara Club Brugge, skaut létt á stjörnum prýtt lið Parísar Saint-Germain eftir að liðin gerðu 1:1 jafntefli í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu karla í gærkvöldi.

Lionel Messi, Kylian Mbappé og Neymar voru allir í byrjunarliði PSG í leiknum í gær, í fyrsta skipti síðan Messi gekk til liðs félagið í sumar.

Þrátt fyrir það gekk franska liðinu illa að brjóta heimamenn í Brugge á bak aftur og sagðist Mignolet, sem var um sex ára skeið hjá enska félaginu Liverpool, hafa haft lítið að gera í gærkvöldi.

„Ég hafði í raun og veru ekki mikið að gera, við spiluðum mjög vel sem ein heild. Við fengum ekki mikið af færum á okkur gegn liði með ótrúlega sóknarlínu.

Það er ekki hægt að dekka þá einn á einn, þeir eru með svo mikil gæði til þess að komast framhjá mönnum. Við reyndum að verjast sem ein heild og gefa þeim ekkert pláss. Ég varði tvisvar eða þrisvar, vörslur sem voru ekki það erfiðar,“ sagði Mignolet í samtali við RMC Sport.

mbl.is