Mourinho ósáttur þrátt fyrir stórsigur

Það þarf meira til þess að gera José Mourinho ánægðan.
Það þarf meira til þess að gera José Mourinho ánægðan. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri ítalska félagsins Roma, var alls ekki sáttur við spilamennsku liðs síns þrátt fyrir afar öruggan 5:1 sigur gegn CSKA Sofia í Sambandsdeild Evrópu í gær.

„Við lékum ekki vel. Við erum raunverulega að búa til nýtt lið en í dag var ég ekki ánægður með spilamennsku okkar.

Hluta leiksins gerðum við vel, við erum að setja saman sterkt lið, við höfum nú þegar talað um það og við verðum að vera enn meira lið þegar erfið augnablik láta á sér kræla,“ sagði Mourinho eftir sigurinn í gær.

Hann hélt áfram: „Ég var ekki sáttur við frammistöðuna í heild sinni. Við sýndum ekki gæði í spilamennsku okkar.

Bakverðirnir komu ekki nógu framarlega, það var ekki nógu mikil ákefð til staðar og við töpuðum svo mörgum varnarnávígjum, þrátt fyrir að hafa æft þetta fyrir aðeins tveimur dögum.“

Mourinho sagði Roma ekki hafa verðskuldað að vinna svo stórt.

„Ég get ekki sagt að við höfum spilað illa en við spiluðum ekki vel heldur, og svo sannarlega ekki nógu vel til að verðskulda 5:1 úrslit. Við búum yfir meiri gæðum en CSKA Sofia en við gerðum samt ekki nóg.“

mbl.is