„Þetta mark var fyrir þig pabbi“

Nathan Aké skorar sitt fyrsta mark í Meistaradeild Evrópu á …
Nathan Aké skorar sitt fyrsta mark í Meistaradeild Evrópu á miðvikudagskvöld. AFP

Nathan Aké, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester City, skoraði sitt fyrsta mark í Evrópukeppni þegar hann kom City á bragðið í 6:3 sigri gegn RB Leipzig á miðvikudagskvöld. Skömmu eftir að hann skoraði lést faðir hans.

„Síðustu undanfarnar vikur hafa verið þær erfiðustu í lífi mínu, faðir minn hefur verið mjög veikur og frekari meðferð var ekki möguleg. Ég var afar lánsamur að hafa notið mikils stuðnings frá unnustu minni, fjölskyldu og vinum,“ skrifaði Aké á Instagramaðgangi sínum.

Aké kom City á bragðið á 16. mínútu og eftir leikinn í Meistaradeild Evrópu var honum gert kunnugt að faðir hans hafi verið úrskurðaður látinn aðeins nokkrum mínútum eftir að hann skoraði.

„Í gær [í fyrradag] eftir erfiða tíma skoraði ég mitt fyrsta mark í Meistaradeildinni og aðeins nokkrum mínútum síðar féll hann friðsamlega frá í faðmi móður minnar og bróður.

Þessu var kannski ætlað að fara svona, það að horfa á mig spila fyllti hann alltaf stolti og ánægju. Ég veit að þú ert alltaf með mér, þú verður ávallt í hjarta mínu og þetta mark var fyrir þig pabbi,“ skrifaði hann einnig.

View this post on Instagram

A post shared by Nathan Aké (@nathanake)

mbl.is