Guðmundur lagði upp í kærkomnum sigri

Guðmundur Þórarinsson í leik Íslands og Póllands í sumar.
Guðmundur Þórarinsson í leik Íslands og Póllands í sumar. AFP

Landsliðsmaður­inn Guðmund­ur Þór­ar­ins­son lagði upp eitt marka New York City er liðið sneri aftur á sigurbraut með 2:1-sigri gegn FC Cincinnati í bandarísku MLS-deildinni í knattspyrnu í nótt.

Heimamenn í Cincinnati tóku forystuna snemma leiks en Keaton Parks jafnaði metin skömmu fyrir hálfleik eftir fyrirgjöf Guðmundar. Valentin Castellanos skoraði svo sigurmarkið úr vítaspyrnu um hálftíma fyrir leikslok en New York var ekki búið að næla í sigur í síðustu þremur leikjum. Guðmundur var tekinn af velli á 84. mínútu.

Þrátt fyrir það er liðið í 3. sæti deildarinnar með 38 stig, þremur stigum á eftir Nashville en 18 stigum á eftir toppliði New England. Toppliðið gerði þó jafntefli í kvöld, 1:1, gegn Columbus Crew en Arnór Ingvi Traustason kom inn sem varamaður á 82. mínútu í liði New England.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert