Messi lét óánægju sína í ljós

Lionel Messi neitaði að taka í höndina á Mauricio Pochettino …
Lionel Messi neitaði að taka í höndina á Mauricio Pochettino í gær. AFP

Lionel Messi, sóknarmaður knattspyrnuliðs París Saint-Germain í Frakklandi og einn besti leikmaður heims, var allt annað en sáttur í gær þegar lið hans PSG vann 2:1-sigur gegn Lyon frönsku 1. deildinni í París.

Messi var í byrjunarliði PSG í leiknum í fyrsta sinn í deildinni á tímabilinu en honum var skipt af velli á 76. mínútu í stöðunni 1:1.

Argentínski landsliðsfyrirliðinn var allt annað en sáttur með að vera tekinn af velli og neitaði að taka í hönd Mauricio Pochettino, stjóra PSG.

Messi fékk sér svo sæti á bekknum og virkaði hinn önugasti en franskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um málið síðan í gær.

Messi gekk til liðs við PSG á frjálsri sölu frá Barcelona í sumar en hann er af mörgum talinn besti knattspyrnumaður sögunnar.

mbl.is