Lars á að bjarga botnliðinu

Lars Lagerbäck er kominn til starfa í heimalandinu.
Lars Lagerbäck er kominn til starfa í heimalandinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lars Lagerbäck, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, er kominn í þjálfarateymi sænska úrvalsdeildarfélagsins Östersund.

Félagið tilkynnti í dag að hann væri kominn þangað til að aðstoða vin sinn, Norðmanninn, Per Joar Hansen. sem er nýtekinn við sem aðalþjálfari Östersund en liðinu hefur gengið allt í óhag í ár, aðeins unnið þrjá leiki af nítján og situr á botni úrvalsdeildarinnar. Hansen, sem var aðstoðarþjálfari hjá Lars með norska landsliðið frá 2017 til 2020, tók við á dögunum af Amir Azrafshan sem var sagt upp störfum.

„Perry vill fá hjálp frá mér og það er sjálfsagt. Ég hef skoðað þrjá síðustu leiki Östersund og við höfum rætt um mótherjana og hvernig frammistaða liðsins hefur verið. Ég reyni að hjálpa eftir megni en Perry tekur allar ákvarðanir," sagði hinn 73 ára gamli Lagerbäck á Facebook-síðu Östersund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert