Lentu í basli en skoruðu fimm í seinni hálfleik

Dzsenifer Marozsán og samherjar í þýska landsliðinu skoruðu fimm mörk …
Dzsenifer Marozsán og samherjar í þýska landsliðinu skoruðu fimm mörk í seinni hálfleiknum í dag. AFP

Þýskaland lenti í óvæntum vandræðum með Serbíu í undankeppni heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu í dag en vann þó að lokum mjög öruggan sigur.

Liðin áttust við í Chemnitz í Þýskalandi og þar skoraði Nina Matejic fyrir Serba strax á 3. mínútu. Serbneska liðið hélt því þýska í skefjum út fyrri hálfleikinn og var með 1:0 forystu að honum loknum.

Í seinni hálfleik tók hinsvegar Lea Schüller leikinn í sínar hendur og skoraði fjögur mörk á 28 mínútum áður en varamaðurinn Melanie Leupolz innsiglaði sigurinn með fimmta markinu, 5:1.

Þýskaland er þá með sex stig og markatöluna 12:1 eftir tvo fyrstu leiki sína en liðið vann Búlgaríu 7:0 í fyrsta leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert