Stórveldinu var sparkað úr bikarnum

Ísak Bergmann Jóhannesson (7) og Andri Fannar Baldursson (8) leika …
Ísak Bergmann Jóhannesson (7) og Andri Fannar Baldursson (8) leika báðir með FC Köbenhavn. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Óvænt úrslit urðu í dönsku bikarkeppninni í knattspyrnu í kvöld þegar stórveldinu FC Köbenhavn var sparkað út úr keppninni af nýliðum í B-deildinni, Nyköbing.

Landsliðsmennirnir ungu Ísak Bergmann Jóhannesson og Andri Fannar Baldursson léku báðir á miðjunni hjá Köbenhavn sem lenti 2:0 undir eftir 19 mínútna leik.

Jess Thorup þjálfari gerði tvær breytingar á liðinu eftir 27 mínútur og aðrar tvær í hálfleik en Andri var annar þeirra sem var skipt útaf í leikhléinu. Allt kom fyrir ekki og Nyköbing innsiglaði sigurin með marki undir lokin, 3:0. 

FC Köbenhavn er því úr leik og kemst ekki í sextán liða úrslitin en þar verða allavega þrjú Íslendingalið, SönderjyskE, Midtjylland og OB, og þá eiga AGF, Horsens og Silkeborg öll eftir að spila í 32ja liða úrslitunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert