Knattspyrnufélag kærir tónlistarmann

Birkir Bjarnason lék allan tímann í mögnuðu jafntefli sem Adana …
Birkir Bjarnason lék allan tímann í mögnuðu jafntefli sem Adana Demispor náði í Istanbúl. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birkir Bjarnason, Mario Balotelli og samherjar þeirra í tyrkneska knattspyrnuliðinu Adana Demispor gerðu um síðustu helgi óvænt jafntefli við stórlið Besiktas, 3:3, á útivelli í tyrknesku úrvalsdeildinni. Sá leikur hefur nú haft óvænt eftirmál.

Balotelli kom þar inn á sem varamaður og minnkaði muninn í 3:2, eftir að Besiktas hafði komist í 3:0, og lið Adana Demispor jafnaði síðan metin á sjöundu mínútu í uppbótartíma.

Balotelli kom sér einu sinni sem oftar í fréttirnar en hann fagnaði markinu með því að hlaupa að Sergen Yalcin, þjálfara Besiktas, og benda á höfuðið á sér. Yalcin sagði í sjónvarpsviðtali fyrir nokkru síðan að Balotelli væri heilalaus.

En daginn eftir leikinn sló Serdar Ortac, vinsæll tyrkneskur dægurlagasöngvari, heldur betur í gegn á tónleikum í borginni Adana og vitnaði þar í frækilega frammistöðu liðs Adana Demispor í  umræddum leik í Istanbúl.

Netmiðillinn Fanatik skýrir frá því að Ortac hafi gert hlé í miðju lagi á tónleikunum til að hrósa liði Adana Demispor og hann hafi notað tækifærið til að senda Besiktas háðsglósur og gert grín að liðinu með handahreyfingum.

Þetta fór heldur betur fyrir brjóstið á forráðamönnum Besiktas en þeir hafa nú tilkynnt á Twitter að þeir ætli að kæra Ortac fyrir framferði sitt þar sem hann hafi haft uppi móðgandi orð og bendingar í garð félagsins.

mbl.is