Er enn hættulegur fyrir framan markið

Radamel Falcao.
Radamel Falcao. AFP

Hinn 35 ára gamli Kólumbíumaður, Radamel Falcao, færði sig í efstu deild á Spáni á þessu keppnistímabili og er ekki í neinum vandræðum með að koma boltanum í markið. 

Eftir að hafa verið tvö tímabil hjá Galatasaray í Tyrklandi gekk Falcao til liðs við Rayo Vallecano snemma í september. 

Rayo Vallecano eru nýliðar í efstu deild á Spáni á tímabilinu og var ekki búist við miklu af liðinu. það hefur hins vegar unnið þrjá leiki af fyrstu sex og gert eitt jafntefli. Hefur liðið ekki tapað í síðustu fjórum leikjum. 

Falcao hefur náð að leika þrjá deildarleiki eftir komuna til Spánar og skorað í tveimur þeirra. Nú síðast sigurmarkið gegn Athletic Club í Bilbao á 90. mínútu. 

Falcao hefur skorað hátt í þrjú hundruð mörk í deildarleikjum í sjö löndum en mestri velgengni átti hann að fagna hjá Atletico Madríd og Mónakó. 

mbl.is