Barcelona rétti hlut sinn á ný

Memphis Depay í miðjum hópi liðsfélaganna eftir að hafa skorað …
Memphis Depay í miðjum hópi liðsfélaganna eftir að hafa skorað fyrsta mark Barcelona í dag. AFP

Katalónska stórveldið Barcelona komst á sigurbraut á ný í dag eftir basl í undanförnum leikjum með því að sigra Levante örugglega, 3:0, í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu.

Memphis Depay skoraði úr vítaspyrnu strax á 6. mínútu og Luuk de Jong bætti við marki átta mínútum síðar. Ungstirnið Ansu Fati kom inn á sem varamaður seint í leiknum og innsiglaði sigurinn með þriðja markinu í uppbótartíma leiksins.

Barcelona er þrátt fyrir baslið áfram ósigrað í deildinni í haust þar sem liðið hefur nú unnið þrjá leiki og gert þrjú jafntefli. Barcelona er því með 12 stig í fimmta sætinu, fimm stigum á eftir toppliði Real Madrid sem hefur leikið einum leik meira.

Barcelona hafði í tveimur síðustu leikjum í deildinni gert jafntefli við Cádiz og Granada, sem þykir ekkert sérstakt þar á bæ, og þar á undan tapað 0:3 fyrir Bayern München á heimavelli í Meistaradeild Evrópu. Börsungar verða aftur á ferð á miðvikudaginn þegar þeir sækja Barcelona heim til Lissabon í Meistaradeildinni.

mbl.is