Leggur skóna á hilluna

Samir Nasri spilaði meðal annars með Manchester City og Arsenal …
Samir Nasri spilaði meðal annars með Manchester City og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Franski knatt­spyrnumaður­inn Sam­ir Nasri hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, 34 ára gamall, eftir skrautlegan en jafnframt farsælan feril.

Nasri skaust fram á sjónarsviðið sem ungur leikmaður hjá Marseille í heimalandinu og var síðan keyptur til enska félagsins Arsenal árið 2008. Þar spilaði hann í þrjú ár og skipti svo yfir til Manchester City og átti eflaust sín bestu ár. Í Manchester varð sóknarsinnaði miðjumaðurinn Englandsmeistari tvisvar.

Síðustu árin voru svo erfiðari hjá leikmanninum og spilaði hann frekar lítið síðustu ár. Nasri fór til Antalyaspor í Tyrklandi árið 2017 en spilaði ekki nema átta deildarleiki áður en hann var úrskurðaður í sex mánaða keppnisbann fyrir brot á lyfjareglum.

Hann sneri svo aftur til Englands, gekk til liðs við West Ham, en spilaði ekki nema fimm leiki og yfirgaf félagið nokkrum mánuðum síðar. Hann lauk svo ferlinum hjá Anderlecht í Belgíu. Hann spilaði 41 landsleik fyrir Frakkland og skoraði í þeim fimm mörk á árunum 2007 til 2013.

mbl.is