Skoraði í jafntefli í Molde

Samúel Kári Friðjónsson.
Samúel Kári Friðjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samúel Kári Friðjónsson skoraði fyrra mark Viking frá  Stavanger í dag þegar liðið  gerði jafntefli, 2:2, við Molde á útivelli í norsku úrvalsdeildinni.

Samúel lék á miðjunni hjá Viking fram á 89. mínútu og Patrik Sigurður Gunnarsson varði mark liðsins en hann er í láni hjá norska liðinu frá Brentford á Englandi. Björn Bergmann Sigurðarson var ekki með Molde. Þetta er fjórða markið sem Samúel skorar fyrir Viking í deildinni á þessu tímabili.

Viking er í sjötta sæti deildarinnar með 32 stig. Molde er efst sem stendur með 38 stig en Bodö/Glimt spilar síðar í kvöld og er einnig með 38 stig í öðru sæti.

Hólmar Örn Eyjólfsson lék allan leikinn í vörn Rosenborg sem sigraði Mjöndalen 3:1 í Þrándheimi. Rosenborg er með 37 stig í þriðja sætinu og er komið á fullu í slaginn um meistaratitilinn.

Viðar Ari Jónsson lék allan leikinn með Sandefjord sem fékk skell á heimavelli gegn botnliðinu Stabæk, 0:3.  Sandefjord er með 25 stig í ellefta sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert