Verð að hætta að láta mig detta

Jón Dagur Þorsteinsson í leik Íslands og Norður-Makedóníu fyrr í …
Jón Dagur Þorsteinsson í leik Íslands og Norður-Makedóníu fyrr í þessum mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Dagur Þorsteinsson landsliðsmaður í knattspyrnu lofar bót og betrun í viðtali við danska blaðið Århus Stiftstidende en hann hefur legið undir ámæli í Danmörku fyrir að reyna of mikið að krækja í vítaspyrnur.

Jón Dagur fékk gula spjaldið í síðasta leik fyrir að láta sig detta í vítateig Silkeborg og reyna þannig að fá vítaspyrnu og var gagnrýndur mikið í kjölfarið. Sérfræðingur TV3 Sport í Danmörku, Kenneth Emil Petersen, sagði í þætti í síðustu viku að Jón Dagur væri mest pirrandi leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar.

„Það eru bara stuðningsmenn AGF sem standa með honum. Allir aðrir eru búnir að fá nóg af Jóni því hann fer í taugarnar á mönnum. Ég var sjálfur leikmaður sem margir þoldu ekki en ég kemst ekki með tærnar þar sem hann er með hælana. Öll hans framkoma inni á vellinum er á þann veg. Svona er hann bara og það sást vel hvað hann fór í taugarnar á leikmönnum Silkeborg,“ sagði Petersen í þættinum Offside á TV3 Sport.

„Ég reyndi of mikið að ná í vítaspyrnu í leiknum við Silkeborg. Ég hélt að það yrði snerting og datt of snemma. Í annað skipti bjóst ég líka við snertingu og þar sem ég var orðinn þreyttur, á lokamínútum leiksins, lét ég mig detta. Þegar ég fer yfir strikið er ég fyrstur til að viðurkenna það. Og þarna fór ég yfir strikið. Það er hluti af fótboltanum að gera stundum hluti sem maður ætti ekki að gera og maður verður að taka afleiðingunum af því. Ég vil gjarna hætta þessu.

En ég er enginn vandræðagripur og mér er alveg sama hvað stuðningsmönnum annarra liða finnst um mig,“ segir Jón Dagur í viðtali við Århus Stiftstidende en lið AGF mætir SønderjyskE í úrvalsdeildinni í kvöld.

mbl.is