Barcelona býðst óvænt hjálparhönd frá Dubai

Barcelona er í miklum fjárhagsvandræðum.
Barcelona er í miklum fjárhagsvandræðum. AFP

Spænska íþróttafélaginu Barcelona hefur boðist óvænt hjálparhönd frá fjárfestum í Dubai en þeir eru sagðir tilbúnir að borga upp allar skuldir félagsins. Það er spænski sjónvarpsþátturinn El Curubito sem greinir frá þessu.

Barcelona er í miklum fjárhagsvandræðum og er sagt skulda í kringum 1,35 milljarð evra en félagið gat til að mynda ekki endursamið við Lionel Messi, einn besta knattspyrnumann sögunnar, vegna fjárhagsvandræða sinna í sumar.

Þá eru margir leikmenn félagsins á sölulista en Antoine Griezmann, sem kostaði félagið 100 milljónir evra sumarið 2019, var lánaður til Atlético Madrid í sumar þar sem Börsungar áttu í vandræðum með að greiða honum umsamin laun.

El Curubito greinir einnig frá því að tilboðið frá Dubai sé afar hagstætt fyrir Barcelona og að fjárfestarnir geri ekki tilkall um stóran eignarhlut í félaginu.

Barcelona hafnaði fyrr í sumar sameiginlegu tilboði forráðamanna spænsku 1. deildarinnar og fjárfestingafyrirtækisins CVC sem fól í sér 10% eignarhlut í félaginu og 10% hlut af öllum tekjum félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert