„Lékum ekki eins vel og við höfum gert“

Marco Rossi þjálfari Ungverja og Gareth Southgate á hliðarlínunni í …
Marco Rossi þjálfari Ungverja og Gareth Southgate á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari karlaliðs Englands í knattspyrnu, var ekki ýkjaánægður með frammistöðuna gegn Ungverjalandi á Wembley í kvöld í undankeppni HM 2022. 

„Við lékum ekki eins vel og við höfum gert að ég held og Ungverjaland varðist mjög vel. Við gerðum ekki nóg til þess að vinna leikinn. Ég veit ekki hvort við höfum haldið innst inni að leikurinn yrði þægilegur vegna þess að við unnum þá örugglega í september [4:0] en þeir hafa verið mjög öflugir í vörninni í sumar,“ sagði Southgate þegar BBC radio tók hann tali en England er sem fyrr í efsta sæti riðilsins. 

„Við erum í mjög sterkri stöðu í riðlinum en úrslitin í kvöld eru mikil vonbrigði. Við þurfum að sjá til þess að ná í góð úrslit í næsta mánuði.“

mbl.is