Leikmaður United varð fyrir kynþáttaníði

Anthony Elanga í leik með Manchester United gegn Leicester City …
Anthony Elanga í leik með Manchester United gegn Leicester City á síðasta tímabili. AFP

Sænski sóknarmaðurinn Anthony Elanga, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, varð fyrir kynþáttaníði af hálfu leikmanns U21-árs landsliðs Ítalíu í gærkvöldi.

Sænska knattspyrnusambandið greinir frá því að leikmaður Ítalíu hafi beitt Elanga kynþáttaníði á meðan leik U21-árs liða Ítalíu og Svíþjóðar í undankeppni EM 2023 stóð í Monza í gærkvöldi.

Elanga greindi sjálfur frá því eftir leik að hann hafi orðið fyrir níði.

Stjórnarmenn sænska knattspyrnusambandsins hafa staðfest að búið væri að senda dómurum leiksins og eftirlitsmönnum tilkynningu þar að lútandi og að þeir bíði nú svara.

Ekki hefur komið fram hvenær í leiknum níðið á að hafa átt sér stað en undir lok leiks braust út rifrildi milli leikmanna liðanna sem ekki sá fyrir endann á þegar liðin gengu til búningsklefa.

Elanga var í sjáanlegu uppnámi og tók dómari leiksins hann til hliðar. Hann hafði fengið gult spjald undir lok leiks fyrir að ögra áhorfendum eftir að Svíar jöfnuðu metin í 1:1 á ögurstundu.

Claes Eriksson, þjálfari sænska U21-árs landsliðsins, sagði á blaðamannafundi eftir leik að Svíarnir væru nú búnir að tilkynna sína útgáfu af því sem gerðist og bíði því eftir því hvað muni koma fram í leikskýrslu og dómaraskýrslu.

Hann sagði þá sænska liðið standa þétt við bakið á Elanga.

„Það ætti enginn að þurfa að upplifa það að verða fyrir kynþáttaníði, það er með öllu óásættanlegt. Við stöndum allir með og styðjum Anthony í þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert