Reyndi að fá Suárez til að lokka Messi til Madrídar

Luis Suárez heyrði hljóðið í Lionel Messi.
Luis Suárez heyrði hljóðið í Lionel Messi. AFP

Diego Simeone, knattspyrnustjóri Spánarmeistara Atlético Madríd, hefur greint frá því að hann hafi fengið Luis Suárez, framherja Atlético, til þess að kanna möguleikann á því hvort Lionel Messi hefði áhuga á að ganga til liðs við félagið í sumar.

Þegar ljóst varð að Messi yrði ekki um kyrrt hjá Barcelona hugsaði Simeone sér gott til glóðarinnar þar sem Suárez er góður vinur hans, enda léku þeir saman hjá Barcelona við góðan orðstír um margra ára skeið.

Suárez gekk til liðs við Atlético fyrir rúmu ári síðan og átti stóran þátt í því að liðið vann spænska meistaratitilinn á síðasta tímabili. 

„Ég skal segja ykkur eitt smáatriði. Með hliðsjón af því sem gerðist hjá Barcelona hringdum við í Luis. 

Með fullri virðingu hringdi ég ekki sjálfur í Leo en ég hringdi í Luis og bað hann um að athuga hvernig Messi hefði það.

Hvort hann hefði mikinn áhuga eða hvort það væri smávegis möguleiki á því að hann myndi vilja koma til Atlético,“ sagði Simeone í samtali við argentínska dagblaðið Ole.

Messi fór sem kunnugt er til Parísar Saint-Germain skömmu eftir tilkynningu Barcelona enda sagði Simeone að þessi ráðagerð sín hafi verið andvana fædd.

„Þetta var eitthvað sem varði í svona þrjár klukkustundir því PSG voru strax hugfangnir af þessum möguleika. Var þetta eitthvað? Nei alls ekki,“ bætti hann við.

mbl.is