Ég vissi að mörkin myndu koma

Timo Werner fagnar öðru marka sinna gegn Norður-Makedóníu á mánudagskvöld.
Timo Werner fagnar öðru marka sinna gegn Norður-Makedóníu á mánudagskvöld. AFP

Timo Werner, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Chelsea, virðist vera að finna markaskóna sína að nýju eftir erfitt undanfarið ár. Hann segist aldrei hafa misst trúna á að hann gæti farið að skora mörk á ný.

 Werner vakti talsverða athygli á síðasta tímabili vegna þess fjölda dauðafæra sem hann klúðraði fyrir Chelsea. Auk þess hefur hann skorað 16 mörk í Chelsea-treyjunni sem hafa verið dæmd af, oftast vegna rangstöðu.

Áður en hann gekk til liðs við Chelsea síðasta sumar raðaði hann inn mörkum fyrir RB Leipzig í Þýskalandi.

Eftir að hafa byrjað yfirstandandi tímabil með svipuðum hætti skoraði Werner loks fyrsta deildarmark sitt á tímabilinu gegn Southampton um næstsíðustu helgi og fylgdi því eftir með tveimur mörkum í 4:0 sigri Þýskalands gegn Norður-Makedóníu á mánudag.

„Ég þurfti að hunsa gagnrýnina. Ef ég hefði hugsað endalaust um hana hefði ég ekki getað spilað. Á vissum tímapunkti vissi ég að mörkin myndu koma. Ég veit hvað ég get,“ sagði Werner í samtali við The Sun.

Þjálfarar hans hjá bæði Chelsea og þýska landsliðinu hafa verið uppfullir af hrósi í hans garð enda hefur Werner iðulega spilað vel með báðum liðum þó mörkin hafi sérstaklega verið af skornum skammti hjá Chelsea.

„Ef þjálfaranum þínum líkar vel við þig og reiðir sig á þig er það auðvitað mjög gott. Ég þarf sérstaklega á ytra trausti að halda og vona að ég geti endurgoldið það,“ bætti Werner við og vísaði þar til bæði Thomas Tuchel, knattspyrnustjóra Chelsea, og Hansi Flick, aðalþjálfara Þýskalands.

mbl.is