Braut gegn nálgunarbanni og fékk sex mánaða dóm

Lucas Hernandez í leik með Bayern München.
Lucas Hernandez í leik með Bayern München. AFP

Franski varnarmaðurinn Lucas Hernandez, sem leikur með þýska knattspyrnufélaginu Bayern München, hefur verið dæmdur í sex mánaða fangelsi á Spáni fyrir að brjóta gegn nálgunarbanni gagnvart núverandi eiginkonu sinni.

Málið er ansi athyglisvert þar sem það lýtur að því Hernandez og Amelia Ossa Llorente rifust heiftarlega á götum Madrídar á Spáni árið 2017. Llorente var flutt á spítala með smávægileg meiðsli.

Dómstóll þar í borg ákvað að setja nálgunarbann á þau bæði þrátt fyrir að þau hafi hvorugt lagt fram kæru gegn hvoru öðru. Þá var Hernandez dæmdur fyrir heimilisofbeldi í garð Llorente.

Þau eru þó enn saman og giftu sig raunar skömmu eftir rifrildið.

Eftir að hafa sést saman í Madríd eftir að hafa gift sig sama ár brutu þau bæði gegn nálgunarbanninu í garð hvors annars og því ákvað dómstóllinn þar í borg að dæma Hernandez til sex mánaða fangelsisvistar og Llorente í 31. dags samfélagsþjónustu fyrir sinn þátt í rifrildinu þar sem hún viðhafði ofbeldi og framdi eignaspjöll.

Hernandez ber að mæta fyrir dómstólinn næstkomandi þriðjudag. Áfrýjunum hans vegna dómsins hefur hingað til verið hafnað en hefur hann aftur reynt að áfrýja dómnum.

Eftir að Hernandez mætir fyrir rétt mun hann hafa tíu daga til þess að gefa sig fram til að hefja fangelsisvist sína.

mbl.is