Landsliðsmarkvörðurinn hélt sætinu

Elías Rafn Ólafsson er að gera góða hluti í Danmörku.
Elías Rafn Ólafsson er að gera góða hluti í Danmörku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Midtjylland, topplið dönsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, mátti sætta sig við eitt stig er liðið heimsótti Nordsjælland í dag en lokatölur urðu 2:2.

Elías Rafn Ólafsson, sem spilaði sína fyrstu landsleiki gegn Liechtenstein og Armeníu, var áfram í markinu hjá Midtjylland en hann hefur heillað marga með góðri frammistöðu á milli stanganna hjá liðinu. Aðalmarkvörður liðsins, Jonas Lössl, sem á A-landsleiki fyrir Danmörku, hefur náð sér af meiðslum en þurfti að sitja á bekknum annan leikinn í röð.

Íslenski landsliðsmaðurinn þurfti að sætta sig við að fá á sig fyrstu mörkin í dönsku úrvalsdeildinni en hann hafði fram að leiknum í dag haldið hreinu í öllum fimm leikjum sínum og setti þá met hjá nýliða í deildinni.

Midtjylland er þrátt fyrir jafnteflið með 28 stig og með fjögurra stiga forskot á FC Kaupmannahöfn sem er í öðru sæti. Kaupmannahafnarliðið á hinsvegar leik til góða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert