Alex Þór skoraði annan leikinn í röð (myndskeið)

Alex Þór Hauksson eftir leik með U21-árs landsliðinu gegn Rússlandi …
Alex Þór Hauksson eftir leik með U21-árs landsliðinu gegn Rússlandi í lokakeppni EM í mars á þessu ári. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Alex Þór Hauksson var á skotskónum hjá sænska knattspyrnuliðinu Öster þegar hann skoraði í öðrum leik sínum í röð í B-deildinni þar í landi í kvöld. Mark hans reyndist sigurmarkið í 3:2 sigri gegn Vasalund.

Öster tók forystuna strax á fyrstu mínútu leiksins áður en gestirnir í Vasalund sneru við taflinu og komust í 1:2 fyrir hálfleik.

Strax í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Öster metin og skömmu síðar á 56. mínútu, kom Alex Þór heimamönnum yfir að nýju.

Hann lét þá vaða af löngu færi, boltinn fór af varnarmanni Vasalund, þaðan yfir markvörð liðsins og í netið. Staðan orðin 3:2.

Ekki var meira skorað í leiknum og hirti Öster því stigin þrjú. Liðið er í sjöunda sæti deildarinnar þegar fimm umferðir eru eftir og eygir enn veika von um að ná þriðja sætinu sem gefur keppnisrétt í umspili um úrvalsdeildarsæti.

Alex Þór skoraði einnig í síðustu umferð fyrir tveimur vikum í 2:2 jafntefli gegn Brage. Það mark var hans fyrsta fyrir Öster.

Mark Alex Þórs í kvöld má sjá hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert