Hoppaði á axlir fyrrverandi liðsfélaga, fékk rautt spjald og fór að gráta

Luiz Felipe í leiknum á laugardaginn.
Luiz Felipe í leiknum á laugardaginn. AFP

Luiz Felipe, brasilískur varnarmaður Lazio, fékk ansi skrautlegt rautt spjald í 3:1 sigri liðsins gegn Internazionale í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu karla á laugardaginn.

Lazio gulltryggði sigurinn með þriðja markinu seint í leiknum þegar Sergej Milinkovic-Savic skoraði.

Luiz Felipe réði sér vart fyrir kæti og ákvað að fagna með því að hoppa á axlir Joaquín Correa, leikmanns Inter sem er þar í láni frá Lazio.

Correa var ekkert mjög sáttur við það og þá ekki liðsfélagar hans í Inter. Brutust enda út slagsmál sem enduðu með því að Felipe einn fékk beint rautt spjald.

Fór hann grátandi af velli vegna þess og því ljóst að hann upplifði stóran hluta tilfinningaskalans undir lok leiksins.

„Fyrst vil ég koma því á hreint að ég ber mikla virðingu fyrir Inter. Við erum allir atvinummenn sem reynum að ná markmiðum okkar og myndum aldrei sýna öðrum atvinnumönnum vanvirðingu. Undir lok leiks hoppaði ég á axlir Tucu því hann er einn af þeim frábæru vinum sem fótboltinn hefur fært mér.

Fjölskyldur okkar eru vinir og við höfum alltaf verið nánir. Ég vildi knúsa hann og grínast með úrslitin, eins langt og vinátta okkar leyfði, en ég varð of spenntur,“ skrifaði Felipe á Instagram-aðgangi sínum í gær, en Tucu er gælunafn Correa.

„Eftir á að hyggja var þetta kannski ekki besti tímapunkturinn eða mest viðeigandi staðurinn. Ég bið hvern þann sem móðgaðist afsökunar.

Það var ekki á nokkun hátt ætlun mín að sýna honum [Correa], öðrum íþróttamönnum eða Internazionale og ástríðufullum stuðningsmönnum þeirra vanvirðingu. Þetta var sakleysisleg gjörð manneskju sem þykir mjög vænt um Tucu!!“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert