Chelsea og Bayern skoruðu fjögur

Chelsea vann sannfærandi sigur.
Chelsea vann sannfærandi sigur. AFP

Chelsea vann í kvöld öruggan 4:0-sigur á Malmö á heimavelli í H-riðli í Meistaradeild Evrópu í fótbolta.

Enska liðið var mun sterkari aðilinn og var staðan í hálfleik 2:0. Andreas Christensen skoraði fyrsta markið á 9. mínútu og Jorginho bætti við öðru marki úr víti á 21. mínútu. Varamaðurinn Kai Havertz skoraði þriðja markið á 48. mínútu og Jorginho bætti við því fjórða á 57. mínútu, aftur út víti.

Í sama riðli vann Juventus 1:0-útisigur á Zenit. Dejan Kulusevski skoraði sigurmarkið á 86. mínútu. Juventus er með fullt hús stiga og Chelsea í öðru sæti með sex stig.

Bayern München vann 4:0-útisigur á Benfica, en mörkin létu bíða eftir sér. Leroy Sané skoraði það fyrsta á 70. mínútu og eftir það bættist við sjálfsmark og mark frá Robert Lewandowski. Sané var svo aftur á ferðinni með fjórða mark Bayern á 84. mínútu.

Bayern er á toppi riðilsins með fullt hús stiga, Benfica er í öðru sæti með fjögur og Barcelona í þriðja sæti með þrjú stig. 

Robert Lewandowski fagnar marki sínu.
Robert Lewandowski fagnar marki sínu. AFP
mbl.is