Fluttur til Þýskalands með sjúkraflugi

Julian Nagelsmann, stjóri Bayern München.
Julian Nagelsmann, stjóri Bayern München. AFP

Julian Nagelsmann, þjálfari knattspyrnuliðs Bayern München, greindist með kórónuveiruna í gær. Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Bayern München vann öruggan 4:0-sigur gegn Benfica í E-riðli Meistaradeildarinnar í Lissabon ó Portúgal í gær.

Nagelsmann var ekki á hliðarlínunni í gær en í tilkynningu Bæjara kemur meðal annars fram að stjórinn hafi greinst með veiruna við komuna til Portúgals, þrátt fyrir að vera bólusettur.

Þjálfarinn verður því í einangrun næstu daga en honum verður flogið frá Portúgal til Þýskalands með sjúkraflugi.

Nagelsmann, sem er 34 ára gamall, tók við liði Bayern München í sumar af Hans-Dieter Flick en hann hefur einnig stýrt Hoffenheim og RB Leipzig á ferlinum.

mbl.is