Sögulegt tap Mourinho í Noregi

José Mourinho og lærisveinar hans í Roma fengu skell í …
José Mourinho og lærisveinar hans í Roma fengu skell í Noregi. AFP

„Ég tek fulla ábyrgð á þessu tapi,“ sagði José Mourinho, knattspyrnustjóri Roma, í samtali við fjölmiðla eftir 1:6-tap liðsins gegn Bodö/Glimt í Sambandsdeild Evrópu í Noregi í kvöld.

Þetta er í fyrsta sinn á ferlinum sem lið sem Mourinho stýrir fær á sig sex mörk í einum og sama leiknum en hann var að stýra sínum 1.008 leik á ferlinum.

Mourinho stillti upp hálfgerðu varaliði í leiknum og hvíldi marga lykilmenn en hann tók við stjórataumunum hjá Roma í sumar.

„Ég valdi byrjunarliðið og ég vildi gefa fleiri leikmönnum tækifæri til þess að sanna sig,“ sagði Portúgalinn.

„Ég hef aldrei farið í felur með það að við erum með þunnskipaðan hóp. Við erum með þrettán leikmenn sem hægt er að flokka sem byrjunarliðsleikmenn. Aðrir leikmenn eru ekki í sama gæðaflokki.

Við töpuðum gegn liði sem var betra en við í kvöld, svo einfalt er það,“ bætti Mourinho við en íslenski landsliðsmaðurinn Alfons Sampsted var í byrjunarliði Bodö/Glimt í kvöld og lagði upp þriðja mark norska liðsins.

mbl.is