Þrenna Mead tryggði Englandi sigur

Bethany Mead (nr. 22) skoraði þrennu í dag
Bethany Mead (nr. 22) skoraði þrennu í dag AFP

England sigraði nágranna sína í Norður-Írlandi örugglega 4:0 í undankeppni HM kvenna í knattspyrnu í dag en leikið var á Wembley-leikvanginum í London frammi fyrir rúmlega 23 þúsund áhorfendum.

Staðan var ennþá 0:0 í hálfleik en á 63. mínútu komu nöfnunar Bethany Mead og Bethany England báðar inná.

Bethany Mead kom Englandi yfir einungis mínútu síðar og Bethany England tvöfaldaði forystuna átta mínútum síðar. Mead bætti svo við tveimur mörkum áður en yfir lauk og fullkomnaði þrennu sína.

Eftir þrjár umferðir eru England og Austurríki bæði með fullt hús stiga í efstu tveimur sætunum. Norður Írland er í þriðja sætinu með sex stig.

mbl.is