Alfreð loksins klár í slaginn

Alfreð Finnbogason er klár í slaginn með Augsburg á nýjan …
Alfreð Finnbogason er klár í slaginn með Augsburg á nýjan leik eftir erfið meiðsli. AFP

Alfreð Finnbogason, leikmaður Augsburg í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu, er heill heilsu og klár í slaginn á nýjan leik. Þetta staðfesti Markus Weinzierl, stjóri Augsburg, á blaðamannafundi þýska liðsins í dag.

Augsburg heimsækir Bochum í 2. umferð þýsku bikarkeppninnar í kvöld en Alfreð lék sinn fyrsta deildarleik á tímabilinu til þessa á dögunum þegar hann kom inn á sem varamaður á 85. mínútu gegn Armenia Bielefeld í þýsku 1. deildinni. 

Hann hefur verið afar óheppinn með meiðsli undanfarin ár og því lítið getað beitt sér en hann byrjaði einungis fjóra deildarleiki á síðust leiktíð.

„Hann hefur verið lengi hjá félaginu og skoraði mörk frábær mörk fyrir okkur,“ sagði Weinzierl á blaðamannafundinum.

„Ég er fyrst og fremst ánægður með það að hann sé tilbúinn og klár í slaginn,“ bætti stjórinn við.

Augsburg hefur ekki gengið vel á tímabilinu til þessa en liðið er með 6 stig í sextánda og þriðja neðsta sæti deildarinnar eftir níu umferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert