Koeman rekinn frá Barcelona

Ronal Koeman á hliðarlínunni í kvöld.
Ronal Koeman á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Ronald Koeman hefur verið látinn taka pokann sinn sem knattspyrnustjóri Barcelona eftir afleitt gengi að undanförnu.

Í kvöld tapaði liðið 0:1 fyrir Rayo Vallecano í spænsku 1. deildinni og var það þriðja tap þess í síðustu fjórum deildarleikjum.

Liðið er í 9. sæti deildarinnar með 15 stig þegar liðið er búið að leika tíu leiki, sex stigum frá Real Madríd, Sevilla, Real Betis og Real Sociedad sem eru jöfn að stigum í efstu fjórum sætum deildarinnar, öll með 21 stig.

Þá er Barcelona í slæmri stöðu í Meistaradeild Evrópu þar sem liðið er aðeins með 3 stig að loknum þremur leikjum í E-riðlinum.

„Ég veit ekki hvort starf mitt sé í hættu. Staðan er háð aðstæðum. Við erum með leikmenn sem geta skorað mörk. Það gæti verið að við séum með veikari miðju en ég get ekki kvartað undan liðinu.

Það var erfitt fyrir okkur að ná stjórn á leiknum, þeir settu okkur undir mikla pressu og náðu að halda út. Úrslitin eru ekki sanngjörn en það er eins og það er og þessu verður ekki breytt núna.

Það gæti verið að þeir séu með meira jafnvægi í liðinu sínu, kannski eru þeir með betri líkamsbyggingu en við. Við höfum sýnt að við erum færir um að spila vel en að spila á góðu stigi er ekki nóg,“ sagði ráðvilltur Koeman á blaðamannafundi eftir leikinn, áður en ljóst var að honum yrði sagt upp störfum.

Koeman entist aðeins 14 mánuði í starfi og stýrði Barcelona til sigurs í spænska konungsbikarnum á síðasta keppnistímabili.

mbl.is