Skoða hvort hægt sé að kalla Patrik fyrr til baka

Patrik Sigurður Gunnarsson á landsliðæfingu í Kaplakrika í upphafi mánaðarins.
Patrik Sigurður Gunnarsson á landsliðæfingu í Kaplakrika í upphafi mánaðarins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enska knattspyrnufélagið Brentford skoðar nú hvort það geti kallað Patrik Sigurð Gunnarsson, einn landsliðsmarkvarða Íslands, til baka úr láni frá norska félaginu Viking.

Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður Patriks Sigurðar, sagði í samtali við Fótbolta.net að það væri í skoðun hvort Brentford mætti kalla Patrik til baka á þessum tímapunkti en lánssamningur hans er til loka yfirstandandi tímabils í Noregi, þ.e. til áramóta.

Ástæðan fyrir því að það er í skoðun er sú að aðalmarkvörður Brentford, David Raya, skaddaði á dögunum aftari liðbönd í hnéi og verður af þeim sökum frá um skeið.

Álvaro Fernández er því eini leikfæri markvörður aðalliðsins um þessar mundir og mun verja mark liðsins á næstunni, en næstu varamarkmenn eru á táningsaldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert