Þjálfarinn kýs að nota aðra leikmenn

Eden Hazard hefur aðeins byrjað fjóra leiki í spænsku 1. …
Eden Hazard hefur aðeins byrjað fjóra leiki í spænsku 1. deildinni á tímabilinu. AFP

Eden Hazard, sóknarmaður Real Madrid og fyrirliði belgíska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur ekki átt fast sæti í liði Real Madrid á tímabilinu.

Sóknarmaðurinn, sem er þrítugur, gekk til liðs við Real Madrid frá Chelsea sumarið 2019 fyrir 90 milljónir punda en hefur engan vegin staðið undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans á Spáni.

Hann var algjör lykilmaður í liði Chelsea á árunum 2012 til 2019 og skoraði 110 mörk í 352 leikjum fyrir félagið. Hann hefur einungis skorað fimm mörk í 51 leik fyrir Real Madrid en hann hefur aðeins byrjað fjóra leiki í spænsku 1. deildinni á tímabilinu.

Hazard var ónotaður varamaður í 2:1-sigri Real Madrid gegn Barcelona á Nývangi í Barcelona um síðustu helgi og var Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, spurður út í stöðu Hazards hjá félaginu.

„Hann er heill heilsu og allt í góðu með það,“ sagði Ancelotti í samtali við fjölmiðlamenn eftir leikinn.

„Vandamálið er hins vegar það að þjálfarinn kýs að nota aðra leikmenn,“ bætti Ancelotti við.

mbl.is