Haller orðinn markahæstur ásamt Lewandowski

Sebastien Haller getur ekki hætt að skora í Meistaradeildinni.
Sebastien Haller getur ekki hætt að skora í Meistaradeildinni. AFP

Sebastien Haller reyndist hetja Ajax þegar liðið heimsótti Besiktas í C-riðli Meistaradeildarinnar í knattspyrnu í Tyrklandi í kvöld.

Leiknum lauk með 2:1-sigri Ajax en Haller skoraði bæði mörk Ajax í síðari hálfleik eftir að Rachid Ghezzal kom Besiktas yfir á 22. mínútu með marki úr vítaspyrnu.

Haller hefur skorað níu mörk í Meistaradeildinni á tímabilinu og er markahæsti leikmaður keppninnar í ár ásamt Robert Lewandowski, framherja Bayern München.

Ajax er öruggt með efsta sæti riðilsins en liðið er með 15 stig á meðan Beskitas er án stiga í neðsta sætinu.

Þá skoraði Edin Dzeko tvívegis fyrir Inter Mílanó í 2:0-sigri liðsins gegn Shakhtar Donetsk í D-riðlinum.

Inter er með 10 stig í efsta sæti riðilsins, stigi meira en Real Madrid sem heimsækir Sheriff í kvöld, en Sheriff er með 6 stig í þriðja sætinu og getur með sigri skotist upp í annað sæti riðilsins.

mbl.is