Neitaði handabandi eftir óvænt tap (myndskeið)

Luciano Spalletti var ekki í góðu skapi í Moskvu í …
Luciano Spalletti var ekki í góðu skapi í Moskvu í dag. AFP

Luciano Spalletti, knattspyrnustjóri toppliðs ítölsku A-deildarinnar, Napoli, neitaði að þakka kollega sínum hjá Spartak Moskva, Rui Vitoria, eftir leik liðanna í rússnesku höfuðborginni í dag.

Spartak vann þar nokkuð óvæntan sigur, 2:1, í leik liðanna í Evrópudeildinni og setti þar með C-riðil deildarinnar í algjört uppnám. Spartak og Napoli eru nú með 7 stig hvort og eiga einn leik eftir en Legia frá Varsjá og enska liðið Leicester eru á hælum þeirra með 6 og 5 stig og mætast á heimavelli Leicester annað kvöld. Óhætt er að segja að þessi riðill sé galopinn en tvö liðanna komast áfram.

Aleksandr Sobolev kom Spartak í 2:0 með tveimur mörkum á fyrsta hálftímanum í snjókomunni í Moskvu en Eljif Elmas frá Norður-Makedóníu, sem skoraði tvö mörk gegn Íslandi fyrr í þessum mánuði, minnkaði muninn fyrir Napoli um miðjan síðari hálfleik.

Hér má sjá myndskeið af Spalletti og Vitoria eftir leikinn og sá portúgalski er frekar hissa á hinum ítalska kollega sínum!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert