Alfons og félagar í útsláttarkeppnina

Leikmenn Bodö/Glimt fagna marki í kvöld.
Leikmenn Bodö/Glimt fagna marki í kvöld. Ljósmynd/@Glimt

Bodö/Glimt er komið áfram í sextán liða úrslit Sambandsdeildar UEFA í knattspyrnu eftir 2:0-sigur gegn CSKA Sofia í C-riðli keppninnar í Noregi í kvöld.

Sondre Fet kom Bodö/Glimt yfir á 25. mínútu og Erik Botheim innsiglaði sigur norska liðsins með marki á 85. mínútu.

Alfons Sampsted lék allan leikinn í hægri bakverðinum hjá Bodö/Glimt sem er í efsta sæti riðilsins með 11 stig en Roma, sem vann 4:0-sigur gegn Zorya á Ítalíu, er í öðru sætinu með 10 stig fyrir lokaumferðina.

Þá  tryggði AZ Alkmaar sér efsta sæti D-riðils, þrátt fyrir 1:1-jafntefli gegn Jablonec í Tékklandi þar sem Haakon Evjen skoraði mark hollenska liðsins í síðari hálfleik.

Albert Guðmundsson kom inn á sem varamaður hjá AZ Alkmmar á 78. mínútu en liðið er í efsta sætinu með 11 stig og hefur fjögurra stiga forskot á Randers fyrir lokaumferðina.

Rúnar Már Sigurjónsson kom inn á sem varamaður hjá CFR Cluj á 46. mínútu þegar liðið tapaði 1:2-fyrir Randers í Danmörku en CFR Cluj er með 1 stig í neðsta sæti riðilsins og á ekki möguleika á því að fara áfram í útsláttarkeppnina.

mbl.is