Varnarmaður PSG skaut á stórstjörnur liðsins

Lionel Messi, Kylian Mbappé og Neymar voru gagnrýndir fyrir frammistöðu …
Lionel Messi, Kylian Mbappé og Neymar voru gagnrýndir fyrir frammistöðu sína í gær. AFP

Presnel Kimpembe, varnarmaður knattspyrnuliðs París SG í Frakklandi, skaut á sóknarþrennu franska liðsins í viðtölum við fjölmiðlamenn eftir tap liðsins gegn Manchester City í A-riðli Meistaradeildarinnar á Etihad-vellinum í Manhester í gær.

Leiknum lauk með 2:1-sigri Manchester City en Kylian Mbappé kom París SG yfir á 50. mínútu áður en þeir Raheem Sterling og Gabriel Jesus bættu við sitt hvoru markinu fyrir City.

Með sigrinum tókst City að tryggja sér efsta sæti A-riðils en París SG endar í öðru sætinu, óháð úrslitum í lokaumferðinni.

„Við erum allir miklir keppnismenn og það er enginn ánægður í klefanum þegar að við töpum,“ sagði Kimpembe.

„Við þurfum að bæta okkur og drepa leikina fyrr. Við þurfum líka að vinna saman sem ein heild og verjast sem lið,“ bætti Kimpembe við en sóknarmenn liðsins þeir Lionel Messi, Kylian Mbappé og Neymar tóku ekki mikinn þátt í varnarleik liðsins í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert