Lögregla þurfti að skilja stjórana að

Unai Emery og Xavi rifust eins og hundur og köttur.
Unai Emery og Xavi rifust eins og hundur og köttur. AFP

Það sauð allt upp úr milli knattspyrnustjóranna Unai Emery og Xavi Hernández þegar Villarreal og Barcelona mættust í spænsku 1. deildinni í Villarreal á laugardaginn.

Leiknum lauk mð 3:1-sigri Barcelona en Emery og lærisveinar hans í Villarreal vildu fá tvær vítaspyrnur í leiknum.

Í fyrra atvikinu fór boltinn í hönd Gerard Pique í eigin vítateig en VAR-myndbandsdómgæslan ákvað að skoða atvikið ekki frekar.

Þá fór Raúl Albiol, varnarmaður Villarreal, niður í vítateig Barcelona í síðari hálfleik eftir samstuð við Eric Garcia en ekkert var dæmt.

Spænski miðillinn Sport greinir frá því að Emery og Xavi hafi rifist svo harkalega í leikmannagöngunum eftir leik að kallað hafi verið til lögreglu til þess að skilja þá að.

Barcelona er í sjöunda sæti deildarinnar með 23 stig en Villarreal er í því tólfta með 14 stig.

mbl.is