Messi fær Gullboltann í sjöunda skipti

Lionel Messi var brosmildur þegar hann tók við Gullboltanum.
Lionel Messi var brosmildur þegar hann tók við Gullboltanum. AFP

Lionel Messi er knattspyrnumaður ársins 2021 hjá franska knattspyrnutímaritinu France Football og hlaut þar með í kvöld Gullboltann, Ballon D'Or, í sjöunda skipti.

Messi átti frábært tímabil með Barcelona 2020-21 þar sem hann varð langmarkahæstur í spænsku 1. deildinni með 30 mörk og síðan leiddi hann lið Argentínu til langþráðs sigurs í Suður-Ameríkukeppninni, Copa America.

Robert Lewandowski, sóknarmaður Bayern München og pólska landsliðsins, hafnaði í öðru sæti en hann var fyrr í kvöld útnefndur sóknarmaður ársins af France Football.

Jorginho, miðjumaður Chelsea og ítalska landsliðsins, hafnaði í þriðja sæti, Karim Benzema, framherji Real Madrid og franska landsliðsins varð fjórði og N'Golo Kanté, miðjumaður Chelsea og franska landsliðsins, hafnaði í fimmta sæti.

Chelsea var útnefnt félag ársins 2021 en karlalið félagsins varð Evrópumeistari og kvennaliðið varð enskur meistari.

Lionel Messi ásamt eiginkonu sinni Antonelu Roccuzzo í París í …
Lionel Messi ásamt eiginkonu sinni Antonelu Roccuzzo í París í kvöld og sonum þeirra Ciro, Mateo og Thiago. AFP
mbl.is