Ronaldo segir ritstjórann ljúga

Cristiano Ronaldo hefur fengið Gullboltann fimm sinnum og aðeins Lionel …
Cristiano Ronaldo hefur fengið Gullboltann fimm sinnum og aðeins Lionel Messi hefur unnið oftar, eða sex sinnum. AFP

Cristiano Ronaldo er fokreiður út í Pascal Ferre, aðalritstjóra franska knattspyrnutímaritsins France Football, sem í kvöld útnefnir besta knattspyrnumann heims og afhendir honum Gullboltann, Ballon D'Or.

Ferre sagði á dögunum að Ronaldo hefði sagt við sig að sitt eina markmið á  ferlinum væri að vinna Gullboltann oftar en Lionel Messi.

Þetta segir Ronaldo að sé helber lygi. „Pascal Ferre lýgur þessu og hann notar nafnið mitt til þess að auglýsa sjálfan sig og fjölmiðlinn sem hann vinnur fyrir. Það er óásættanlegt að sá maður sem er ábyrgur fyrir svona mikilsmetnum verðlaunum skuli ljúga á þennan hátt,"  skrifaði Ronaldo á Instagram.

„Þetta er algjört virðingarleysi, sérstaklega vegna þess að ég hef alltaf haft France Football og Gullboltann í hávegum hjá mér," skrifaði Ronaldo ennfremur og kvaðst aldrei hafa haft það að markmiði að vinna aðra knattspyrnumenn, heldur að vinna leiki fyrir sjálfan sig og þau lið sem hann  spili með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert