Englendingar unnu 20:0

Ellen White skoraði þrjú mörk fyrir enska liðið í kvöld …
Ellen White skoraði þrjú mörk fyrir enska liðið í kvöld og er orðin markahæsta landsliðskona Englandds. AFP

Óvenjulegar tölur í knattspyrnuleik sáust í Doncaster á Englandi í kvöld þegar enska kvennalandsliðið rótburstaði lið Lettlands 20:0 í undankeppni Evrópumótsins.

Staðan var 4:0 eftir tólf mínútur og 8:0 í hálfleik og í seinni hálfleik bætti enska liðið enn betur við og skoraði tólf mörk til viðbótar.

Lauren Hemp, leikmaður  Manchester City, var atkvæðamest með fjögur mörk og þær Ellen White, Bethany Mead og Alessia Russo skoruðu allar þrennu. Russo kom inn á fyrir White eftir 60 mínútna leik og sennilega hefur það ekki oft gerst að bæði leikmaður sem fer af velli og sá sem kemur í hans stað skori þrennu í sama leiknum.

White skráði sig í sögubækurnar í kvöld en hún er nú markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi með 48 mörk. Hún fór í kvöld fram úr Kelly Smith sem skoraði 46 mörk á árunum 1995 til 2015.

Viktoria Zaicikova, leikmaður ÍBV, var ein þeirra sem máttu þola þetta risatap í kvöld en Olga Sevcova, leikmaður ÍBV og burðarás í landsliði Letta, var ekki með í kvöld.

Enska liðið er með markatöluna 53:0 eftir sex leiki í D-riðli og hefur skorað 30 markanna gegn Lettum en fyrri leikur liðanna í Riga endaði 10:0.

England er með 18 stig og á sæti á HM næsta víst en þegar fjórar umferðir eru eftir eru Austurríki og Norður-Írland með 13 stig og berjast um umspilssætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert