Frestað vegna smita í riðli Íslands

Tékkar, hvítklæddir á myndinni, áttu að mæta Hvít-Rússum í dag.
Tékkar, hvítklæddir á myndinni, áttu að mæta Hvít-Rússum í dag. Unnur Karen

Leik Tékklands og Hvíta-Rússlands í undankeppni heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu sem fram átti að fara í Opava í Tékklandi í dag hefur verið frestað eftir að upp komu smit í leikmannahópi Hvít-Rússa.

Enginn leikmanna Hvíta-Rússlands reyndist smitaður þegar liðið kom til Tékklands en í dag kom í ljós að eftir skimun leikmanna í gær voru þrír í hópnum smitaðir af kórónuveirunni. Heilbrigðisyfirvöld í Tékklandi ákváðu þá að fresta leiknum og setja allt liðið í skimun á nýjan leik.

Smituðu leikmennirnir eru í einangrun á hóteli og bíða eftir niðurstöðum úr nýjustu skimun hópsins. Þegar niðurstaða liggur fyrir í kvöld verður ákveðið hvað gert veriði með leikinn, hvort hann verði leikinn á morgun eða frestað til seinni tíma.

Tékkar eru með fimm stig og Hvít-Rússar fjögur í þriðja og fjórða sætinu í C-riðli, á eftir Hollandi og Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert