Klopp: Hvað þarf hann að afreka?

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, veltir því fyrir sér hvað Robert Lewandowski þurfi að afreka á knattspyrnuvellinum að hljóta náð fyrir augum þeirra sem velja þann leikmann sem fær Gullboltann eða Ballon d'Or. 

Klopp sat fyrir svörum á blaðamannafundi vegna leiks Liverpool liðanna sem framundan er í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld. Þar var hann spurður hvort hann væri undrandi á því að sex leikmenn hefðu hafnað ofar í kjörinu en Mohamed Salah leikmaður Liverpool. 

„Ég var undrandi ef ég á að vera hreinskilinn en þetta er ekki í mínum höndum. Ef ykkur finnst að Salah hafi átt að hafna ofar í kjörinu þá þurfið þið að sannfæra kollega ykkar,“ sagði Klopp við blaðamennina og bætti við. 

„Ég held að það sé alltaf hægt að heiðra Lionel Messi vegna þess að hann hefur átt glæsielgan feril og vegna þess hvernig leikmaður hann er. En ef Robert Lewandowski fær ekki Gullboltann í þetta skiptið þá er ansi erfitt fyrir hann að hljóta heiðurinn yfir höfuð,“ sagði Klopp sem stýrði Lewandowski hjá Dortmund og sagði eitt sinn að hann væri sá besti sem hann hefði þjálfað. 

Robert Lewandowski tekur á móti viðurkenningu sinni í gær en …
Robert Lewandowski tekur á móti viðurkenningu sinni í gær en hann var valinn besti sóknarmaðurinn. AFP

Lewandowski hefur aldrei hlotið Gullboltann en þótti líklegur í fyrra en þá var kjörinu aflýst. 

Á síðasta tímabili sló Lewandowski met þegar hann skoraði 41 mark í þýsku Bundesligunni en markametið var í eigu Gerd Müller og hafði því staðið í áratugi. Á árinu hefur Pólverjinn skorað 53 mörk fyrir Bayern München. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert