„Af hverju vann Benzema ekki Gullknöttinn?“

Félagarnir Karim Benzema og Toni Kroos.
Félagarnir Karim Benzema og Toni Kroos. AFP

Toni Kroos, miðjumaður Real Madríd í knattspyrnu karla, skilur ekkert í því hvernig stendur á því að Lionel Messi hafi unnið til Gullknattarins á mánudag og finnst sem liðsfélagi sinn Karim Benzema hafi fremur átt það skilið.

„Af hverju vann Benzema ekki Gullknöttinn? Þetta er alls ekki verðskuldað. Það er ekki nokkur vafi á því að Messi ásamt Cristiano [Ronaldo] hafa verið bestu leikmenn undanfarins áratugs en þetta árið áttu aðrir leikmenn að vera framar Messi,“ sagði Kroos í hlaðvarpi sínu, sem ber heitið „Einfach mal Luppen.“

„Fyrir mér átti Karim að vera númer eitt ef þú ert í raun og veru að líta til besta einstaklingsins undanfarið ár því ég get séð í návígi hversu stórkostlegur knattspyrnumaður hann er.

Þegar ég sé hversu mörg sigurmörk Cristiano hefur skorað undanfarið, Manchester United komst áfram í Meistaradeild Evrópu bara vegna hans, þá hefði hann einnig átt að vera fyrir ofan Messi,“ bætti Kroos við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert