Ekki kunnugt um að hjartastopp tengist bólusetningum

Hlúð að Christian Eriksen eftir að hann fór í hjartastopp …
Hlúð að Christian Eriksen eftir að hann fór í hjartastopp í sumar. Eriksen var ekki búinn að fá bólusetningu við kórónuveirunni þegar hjartastoppið átti sér stað. MADS CLAUS RASMUSSEN

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem tekið er fyrir þær kenningar að aukinn fjöldi knattspyrnumanna séu að fara í hjartastopp vegna þess að þeir hafi verið bólusettir fyrir kórónuveirunni.

Christian Eriksen fór í hjartastopp í sumar í landsleik með Danmörku á EM en Giuseppe Marotta, forseti félagsliðs hans Inter, sagði skömmu síðar að Eriksen hafi ekki verið búinn að fá bólusetningu vegna veirunnar.

Í síðustu viku hneig John Fleck niður í leik með Sheffield United gegn Reading í ensku B-deildinni og var hraðað á spítala eftir að hafa fengið bráða læknishjálp á vellinum.

Charlie Wyke, framherji Wigan í ensku C-deildinni, hneig þá niður á æfingu á dögunum og var hraðað á spítala þar sem líðan hans var orðin stöðug.

Hann bað forráðamenn Wigan um að láta vita af því að hann væri ekki búinn að fá bólusetningu við veirunni.

Adama Traoré, leikmaður Sheriff Tiraspol, hneig einnig niður í leik liðsins gegn Real Madríd í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku og hélt um brjóst sér.

FIFA sagði í svari til Reuters-fréttastofunnar að ekkert ofangreindra tilfella tengdist bólusetningu vegna kórónuveirunnar.

„FIFA er ekki kunnugt um aukinn fjölda hjartastoppa á meðal leikmanna og ekki hefur verið tilkynnt um neitt tilfelli í tengslum við að einstaklingar hafi fengið bólusetningu við kórónuveirunni.

Almennt er FIFA í reglulegu sambandi við rannsóknarmiðstöðvar og sérfræðinga sem framkvæma rannsóknir í tengslum við fjölda málefna er lúta að læknisfræði,“ sagði í svarinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert