Guðmundur lagði upp gegn Arnóri og New York í úrslit

Guðmundur Þórarinsson og félagar í New York City eru komnir …
Guðmundur Þórarinsson og félagar í New York City eru komnir í úrslitaleik Austurdeildarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Þórarinsson og Arnór Ingvi Traustason komu báðir inn á sem varamenn í framlengingu þegar New England Revolution og New York City mættust í undanúrslitum Austurdeildar bandarísku MLS-deildarinnar í knattspyrnu karla í nótt.

Leikurinn var æsispennandi og réðust úrslitin ekki fyrr en í vítaspyrnukeppni.

Santiago Rodríguez kom New York yfir strax á þriðju mínútu en Adam Buksa jafnaði metin þegar á níundu mínútu.

Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma. Arnór Ingvi kom inn á strax í upphafi framlengingarinnar og Guðmundur kom inn á á 101. mínútu.

Sjö mínútum síðar, á 109. mínútu, lagði Guðmundur upp mark fyrir Valentin Castellanos og úrslitin virtust ráðin.

Tajon Buchanan jafnaði hins vegar metin fyrir New England á 118. mínútu og knúði fram vítaspyrnukeppni.

Staðan að lokinni framlengingu 2:2 og reyndist New York hlutskarpara í vítaspyrnukeppninni með því að skora úr öllum fimm spyrnum sínum á meðan Buksa klúðraði einni af fjórum spyrnum New England.

Staðan að lokinni vítaspyrnukeppni þar með 5:3. Hvorki Guðmundur né Arnór tóku vítaspyrnu fyrir sín lið.

New York mætir Philadelphia Union í úrslitaleik Austurdeildarinnar næstkomandi sunnudag.

New England er úr leik eftir að hafa haft gríðarlega yfirburði í Austurdeildinni á árinu og unnið hana með nítján stigunm meira en næsta lið, Philadelphia Union. New York City endaði í fjórða sæti, 22 stigum á eftir New England.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert